Fyrsti Sunnlendingur ársins 2026 er stúlka frá Eyrarbakka sem fæddist klukkan 17:06 á nýársdag á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi.
Litla stúlkan er dóttir Natalíu Emblu Þórarinsdóttur og Halldórs Ingvars Bjarnasonar. Stúlkan er annað barn þeirra en fyrir eiga þau Storm Hrafn, sem er 1 árs.
„Fæðingin gekk vel og hratt fyrir sig en ég var búin að vera með sex í útvíkkun í fjóra daga. Þegar allt fór af stað þann 1. janúar þá þurfti ekki nema tvo tíma á HSU áður en hún var kominn,“ segir Natalía í samtali við sunnlenska.is. Litla stúlkan vóg 2.960 grömm og 48 sm löng og ljósmóðir var Hugrún Hilmarsdóttir.
„Ég var fyrst sett 12. janúar, svo maður var ekkert að búast við þessu. Við fjölskyldan erum mjög góð og byrjum 2026 á bleiku skýi,“ segir Natalía ennfremur.

