Byrjað að grafa fyrir nýjum leikskóla á Hellu

Vinnusvæðið þar sem leikskólinn mun rísa, austan við grunnskólann. Ljósmynd/RY

Jarðvinna er hafin vegna byggingar Heklukots, nýs leikskóla á Hellu. Heklukot verður átta deilda leikskóli með pláss fyrir um 160 börn.

Mikil eftirvænting er fyrir nýrri leikskólabyggingu sem er hönnuð í takt við nýja grunnskólann og gerir ráð fyrir að geta tekið við stækkandi barnahóp, sem fylgir þeirri stöðugu fólksfjölgun sem er í sveitarfélaginu.

Mikil uppbygging hefur staðið yfir á skólasvæðinu á Hellu síðustu ár en brátt sér fyrir endann á stækkun grunnskólans auk þess sem nýr gervigrasvöllur í fullri stærð var tekinn í notkun nýlega.

Leikskólagarðurinn verður stór og fjölbreyttur og gert er ráð fyrir hringrásarsvæði með moltugerð og matjurtaræktun. Hér fyrir neðan má sjá kynningarmyndskeið af skólanum, sem sýnt var á íbúafundi í fyrra.

Fyrri greinHFSu og SASS undirrita samning um nýsköpunarstefnu
Næsta greinÉg sendi þér vals!