Byrjaði að skrifa ljóð fimm ára

Bergþóra Snæbjörnsdóttir frá Úlfljótsvatni í Grafningi var á dögunum tilnefnd til Íslensku bókamenntaverðlaunanna 2017 fyrir bók sína, Flórída.

„Ég fékk hálfgert áfall þegar Guðrún, útgefandinn minn, hringdi í mig til að láta mig vita að ég hefði verið tilnefnd. Viðbrögðin voru bara þakklæti, gleði og undrun,“ segir Bergþóra í samtali við sunnlenska.is. Þetta er í fyrsta sinn sem Bergþóra er tilnefnd til verðlaunanna.

Hefur alltaf haft áhuga á því sem hryllir
„Flórída er ljóðabók sem segir sögu tveggja kvenna – annarsvegar Flórída sem er uppgjafa pönkari sem dagaði uppi í Berlín og hinsvegar ljóðmælanda, ungrar konu sem er að missa tökin á raunveruleikanum í kjölfarið á röð af áföllum,“ segir Bergþóra sem er með BS gráðu í sálfræði og BA gráðu í ritlist. Um þessar mundir er hún að leggja lokahönd á lokaverkefni sitt til MA náms í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.

„Ég vil meina að Flórída sé líka svona óhefðbundin spennusaga en öll sagan er sögð í gegnum yfirheyrsluherbergi í Berlín. Ég hef alltaf haft áhuga á því sem hryllir mig og er óþægilegt, hvort sem það er eitthvað sem ég sé innra með mér sjálfri eða í öðrum. Eða bara eitthvað sem ég ramba á þegar ég dett niður í einhverjar af fjölmörgum kanínuholum internetsins. Verkið ber keim af því, held ég,“ segir Bergþóra en það er Benedikt bókaútgáfa sem gefur út bókina.

Foreldrarnir áhyggjufullir
Bergþóra hefur áður gefið út ljóðabókina „Daloon dagar“ árið 2011, auk þess sem hún gaf út einskonar ljóðabók/myndlistarbók árið 2013 ásamt Rakel McMahon, myndlistarkonu. „Sú bók var unnin í tengslum við gjörning, verk sem við settum upp í Nýlistasafni Íslands og erlendis. Ég hef líka skrifað handrit að stuttmynd, Munda, sem Tinna Hrafnsdóttir leikstýrði og er um þessar mundir að vinna að kvikmyndaverkefni í fullri lengd með öðrum frábærum leikstjóra, Marteini Þórssyni. Það verk er byggt á skáldsögu eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur, sem er einn af mínum uppáhalds íslensku höfundum.“

„Ég held að það hafi alltaf verið draumurinn að verða rithöfundur, svona innst inni. Ég byrjaði að skrifa ljóð þegar ég var fimm ára og hef eiginlega verið að skrifa síðan. Þegar ég var barn og unglingur höfðu foreldrar mínir miklar áhyggjur af því að ég gerði ekki neitt annað en að lesa. En mig vantaði mjög lengi sjálfstraustið til þess að fylgja þessum draum eftir af einhverri staðfestu og öryggi.“

Langar til að skrifa skáldsögu
Bergþóra segir að tilnefning sem þessi sé fyrst og fremst ótrúlegur heiður og hvatning. „Ég eignaðist ljóðabók eftir Kristínu Ómarsdóttur (sem er líka tilnefnd) þegar ég var 11 ára gömul. Sú bók hafði gríðarleg áhrif á mig og gjörbreytti hugmyndum mínum um ljóð. Ég man þetta eins og einhverja andlega reynslu – að liggja á gólfinu í bleika barnasvefnherberginu mínu að sökkva mér í ljóðaheim hennar sem mér fannst ólíkur öllu öðru. Það að standa þarna með henni og þessum mögnuðu höfundum var bara ólýsanlega gleðilegt. En auðvitað heldur lífið svo bara áfram og ég var mætt inn á lesstofu daginn eftir.“

Aðspurð segir Bergþóra að stóra planið sé að halda áfram að skrifa. „Mig langar að byrja á skáldsögu sem er að berjast um í brjóstinu á mér. Annars er ég um þessar mundir mikið í því að kynna bókina og lesa upp og slíkt. Ef ég næ svo að andvarpa frá mér þessu MA verkefni langar mig að skreyta jólatré og baka piparkökur með tveggja ára dóttur minni sem ég er með nístandi samviskubit gagnvart þessa dagana. Tíminn með henni er stöðugt að renna mér úr greipum. Svo væri kannski ágætt að reyna að leggja sig,“ segir Bergþóra að lokum.

Fyrri grein„Sjáum fram á mikla og jákvæða uppbyggingu í Ölfusi“
Næsta greinÞór vann Þór í Þorlákshöfn