Byrjað á viðbyggingu við Sunnulæk – Byggt yfir útigarðana í Vallaskóla

Í þessari viku hefjast framkvæmdir við 550 fm viðbyggingu við Sunnulækjarskóla á Selfossi og næsta sumar á að byggja yfir svokallaða útigarða í Vallaskóla, sem einnig er á Selfossi.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, er þetta gert til þess að mæta fjölgun grunnskólabarna, en íbúum í Árborg hefur fjölgað mikið síðustu mánuði. Síðastliðinn föstudag urðu íbúar Árborgar 9.000 talsins.

Ætlunin er að taka viðbygginguna við Sunnulækjarskóla í notkun næsta haust.

„Stækkun Sunnulækjarskóla er fyrst um sinn hugsuð til að brúa bilið þar til nýr skóli í Björkurstykki verður tekinn í notkun, en áformað er að fyrsti áfangi þess skóla verði tilbúinn haustið 2020,“ segir Ásta. „Þá mun nýja viðbyggingin við Sunnulækjarskóla nýtast sem heimasvæði skólavistunar Sunnulækjarskóla, en þannig svæði vantar í dag.“

Ásta segir að til skoðunar hafi verið að brúa bilið með bráðabirgðahúsnæði. „Það reyndist tiltölulega óhagkvæmt miðað við að fá varanlegt hús sem nýtist þá til annarra hluta þegar nemendafjöldinn í Sunnulækjarskóla kemst aftur í þau mörk sem gert var ráð fyrir við upphaflega hönnun skólans.“

Breytingarnar í Vallaskóla, þ.e. að byggja yfir útigarðana tvo, leiða til fjölgunar kennslurýma í skólanum og húsnæði skólans nýtist betur.

Að sögn Ástu er áætlað að þessi tvö verkefni kosti ríflega 300 milljónir króna, en að auki er áætlað að verja umtalsverðum fjármunum til viðhalds og lagfæringa í Vallaskóla.

Fyrri greinHamar byrjar árið vel
Næsta greinTakk fyrir árið 2017