Bylting í uppsveitunum

Umferð verður hleypt á nýju Hvítárbrúna í dag og verður því fagnað bæði í hádeginu og síðdegis. Brúin styttir leiðina milli Reykholts og Flúða um 14,5 km.

Beðið verður með formlegheit og borðaklippingar þangað til verkinu er að fullu lokið á næsta ári. Áfanganum í dag verður fagnað með táknrænum hætti kl. 12:30 þegar fyrstu vörubílar Sölufélags garðyrkjumanna mætast á brúnni.

Tungnamenn og Hrunamenn hyggjast svo hittast á brúnni milli kl. 15 og 17 og takast í hendur, faðmast eða hvaðeina sem þeim dettur í hug að gera. Þá munu „Tungnakonur búsettar í Hreppnum” og JÁVERK bjóða upp á kaffi og kleinur í vinnubúðunum vestanmegin árinnar.

Með tilkomu brúarinnar opnast ótal möguleikar hvað varðar atvinnu og búsetu, auk augljósrar samgöngubótar.