Byggt yfir Bónus og Hagkaup

Verktakafyrirtækið JÁVERK ehf. er að hefja framkvæmdir við byggingu verslanamiðstöðvar í austurhluta Selfossbæjar sem hýsa mun verslanir Bónuss og Hagkaupa.

Eins og sunnlenska.is hefur greint frá er um að ræða tvö hús með tilheyrandi bílastæðum og hyggst fyrirtækið sjá um alla gatnagerð á svæðinu samhliða byggingu húsanna.

Að sögn Gylfa Gíslasonar, framkvæmdastjóra JÁVERK, er hér um að ræða mjög áhugavert verkefni sem mun bæta mjög verslunar­þjónustu á Suðurlandi. Annars vegar er gert ráð fyrir að reist verði 2.300 fermetra hús fyrir verslanafyrirtækið Haga sem mun hýsa verslun Bónus og sérvöruverslun Hagkaups. Það verður svipað fyrirkomulag og má finna í Borgarnesi og Reykjanesbæ.

Síðar er ætlunin að byggja 900 fermetra hús þar á móti sem er óráðstafað en hægt verður að skipta uppí allt að 100 fermetra rými. Fyrra húsið verður afhent Högum fullbúið en hitt verður annað hvort selt eða leigt. Húsin eru reist við Larsenstræti samkvæmt nýju deiliskipulagi.

,,Þarna verður mikið lagt uppúr því að það verði næg bílastæði og gott aðgengi, bæði fyrir gesti og starfsmenn,“ sagði Gylfi. Gert er ráð fyrir að byggingarnar verði tilbúnar næsta sumar.