Á síðasta fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar var oddvita og svitarstjóra falið að gera drög að samningi við Ungmennafélag Laugdæla um viðbyggingu við íþróttamiðstöðina á Laugarvatni.
Byggð verður hæð ofan á lægri hluta íþróttahússins, búningsklefana og anddyrið, sem nýtast mun ýmsum aðilum, félagasamtökum og sveitarfélaginu.
Uppleggið er þannig að ungmennafélagið taki að sér verkefnið, framkvæmi það og skili byggingunni af sér til sveitarfélagsins á fokheldisstigi. Fjármagn sem áætlað var í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til þakskipta á umræddum hluta hússins mun ganga upp í kostnað.
Í tilkynningu frá Bláskógabyggð segir að hópur innan Umf. Laugdæla hafi rætt við arkitekta hússins um útfærslur og nú standi yfir viðræður við hönnuði viðbyggingar og burðarþols.

