Byggt við Sundhöll Selfoss

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti samhljóða á fundi í vikunni tillögu um að hefja undirbúning vegna viðbyggingar við Sundhöll Selfoss.

Á gildandi þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er gert ráð fyrir viðbyggingunni en endurbætur á búningsaðstöðu, móttöku og sturtuklefum í Sundhöllinni hafa lengi verið til umræðu.

Í greinargerð með bókun bæjarstjórnar segir að núverandi aðstaða sé ekki í samræmi við aðsókn Sundhallarinnar og kröfur samtímans. “Þótt lítið fjármagn sé aflögu í nýframkvæmdir er hér um mikilvægt mál að ræða sem vert er að hefja nú þegar undirbúning á. Leitað verði leiða til að lágmarka útgjöld sveitarfélagsins með samstarfi við rekstraraðila sem kunna að geta samnýtt hluta af húsnæðinu og lækkað þannig bein útgjöld sem af fjárfestingunni hljótast,” segir í greinargerðinni.

Samþykkt var að fela bæjarráði að kjósa fulltrúa til setu í starfshópi vegna undirbúnings framkvæmdarinnar.