Byggja upp ferðaþjónustu við Þjórsárdalslaug

Ferðaþjónusta verður byggð upp við Þjórsárdalslaug. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ákvað á fundi sínum í fyrradag að ganga til viðræðna við Rauðakamb ehf um uppbygginguna.

RÚV greinir frá þessu.

Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri og einn eigenda Rauðakambs, segir í samtali við RÚV að viðræður hefjist strax og að stefnt sé að því að þeim verði lokið fyrir næsta fund sveitarstjórnar í byrjun júlí. Aðrir eigendur Rauðikambs eru Ragnheiður B. Sigurðardóttir, Ellert K. Schram og Íslenskar heilsulindir, sem er dótturfyrirtæki Bláa Lónsins. Fyrirtækið hyggst byggja upp baðaðstöðu fyrir almenning á svæðinu ásamt gistingu og veitingaaðstöðu. Magnús segir útfærsluna enn á hugmyndastigi en gengið sé út frá því að þarna verði 30 til 40 herbergi.

Byggingarfulltrúi Skeiða og Gnúverjahrepps úrskurðaði mannvirkin við laugina ónýt árið 2015. Magnús segir að gamla laugin verði rifin. Óvíst sé hversu stór nýja laugin verður.

Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum ljúki síðla árs 2019. Í tilkynningu kemur fram að áhersla verði lögð á að gæta vel að umhverfismálum, náttúruvernd og stýringu álags ferðamanna. Magnús segir að það verði gert meðal annars með því að takmarka umferð stórra bifreiða. Rútum og öðrum stærri bílum verði lagt við afleggjarann.

Fyrirtækið gerir ráð fyrir að halda opinn íbúafund um verkefnið gangi samningar eftir.

Frétt RÚV

Fyrri greinEkki er sú rósin best
Næsta greinGrátlegt jafntefli á heimavelli