Byggingarnefndin ekki ábyrg fyrir fjármálahliðinni

Byggingarnefnd Barnaskólans á Stokks­eyri hafði ekkert með fjármálahlið framkvæmdanna að gera og verður ekki gerð ábyrg fyrir þeim þætti málsins.

Þetta kom fram í samtali Sunnlenska við Margréti Katrínu Erlingsdóttur, fyrrverandi bæjarfulltrúa og formann nefndarinnar. Eins og greint var frá í Sunnlenska fréttablaðinu er heildarkostnaður við byggingu skólans um 700 milljónir og fór verkið um 50% fram úr áætlun.

Að sögn Margrétar hafði bygginganefndin fyrst og fremst það hlutverk að fylgjast með faglegum þætti framkvæmdanna, yfirfara teikning­ar og sjá til þess að húsið uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru til þess. ,,Bygginganefndin hafði ekki fjárhagslega ábyrgð á verkefninu og við sátum til að mynda enga verkfundi vegna þess,“ segir Margrét og tekur fram að umboð byggingarnefndarinnar hafi runnið út í vor í kjölfar sveitastjórnar­kosninga.

,,Það var fullt af fagfólki sem fylgdist með verkþáttum og fjárhags­lega hliðin var alltaf á hendi bæjarstjórnar,“ segir Margrét. Vegna fréttar Sunnlenska í síðustu viku um kostnað vegna byggingarinnar sagðist hún vilja benda á að nauðsyn­legt væri að taka verðbótaþáttinn með í dæminu en hann hefði vegið þungt í þeim hækkunum sem orðið hefðu á verkinu.

Nýbyggingin á Stokkseyri var vígð sl. föstudag og vakti það athygli að Margrét var ekki viðstödd vígsluna. Í fréttum RÚV kom fram að henni hafi ekki verið boðið á athöfnina.

Fyrri greinHver var þessi Kolgrímur?
Næsta greinHreppsnefnd íhugar sýnatöku