Bygging gasskiljustöðvar að hefjast

Nú er að hefjast bygging gasskiljustöðvar við Hellisheiðarvirkjun með það hlutverk að hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar.

Það er fyrirtækjahópur undir forystu Héðins hf. sem vinnur verkið og á smíðinni að ljúka í mars 2014. Verkið kostar rúmar 290 milljónir króna.

„Brennisteinsvandinn er mikilvægasta umhverfisverkefni Orkuveitunnar nú um stundir. Smíði þessarar stöðvar er mikilvægt skref til lausnar og það verður áhugavert að sjá árangur þessa áfanga í þróunarverkefninu. Spennandi viðskiptatækifæri tengd jarðhitagösunum eru líka að skjóta upp kollinum en ábyrgðin á lausn þess vanda sem fylgir starfsemi Hellisheiðarvirkjunar hvílir auðvitað á Orkuveitunni,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar.

Hreinsun brennisteinsvetnis úr útblæstri jarðgufuvirkjana hefur verið í umræðu hjá starfsfólki Orkuveitunnar allt frá því Nesjavallavirkjun var tekin í notkun, árið 1990. Eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett, haustið 2006, fór að bera meira á hveralykt á höfuðborgarsvæðinu. Var þá farið að leita leiða til hreinsunar með markvissari hætti en áður. Sú hugmynd kviknaði að hreinsa brennisteinsvetnið frá jarðgufunni og dæla því aftur niður í berggrunninn með vinnsluvatni virkjunarinnar. Smíðuð var tilraunastöð og var fyrsta niðurdælingin síðla árs 2011.

Hún hefur gengið nægilega vel til þess að ákveðið var að smíða stærri gasskiljustöð, sem annað gæti útblæstri frá einum af sex háþrýstihverflum virkjunarinnar. Það er sú stöð sem nú fer í byggingu. Smíðin var boðin út snemmsumars og átti fyrirtækjahópur undir forystu Héðins hf. hagstæðasta boðið. Gengið hefur verið frá samningum og verður ræsfundur verkkaupa og verkataka á mánudag.

Það verk sem nú hefur verið samið um lýtur að smíði, uppsetningu og fullnaðarfrágangi á gasskiljustöð fyrir Hellisheiðarvirkjun sem staðsett verður á lóð virkjunarinnar á Hellisheiði. Gasskiljustöðin er 12×8 metrar að flatarmáli, stálgrindarhús á steyptu gólfi auk um 13 metra hás þvottaturns við stöðina. Verktakinn sér um alla lagna- og jarðvinnu, stálsmíði og uppsetningu vélbúnaðar, sem og allar raflagnir. Þá felast í verkinu endurbætur á viðeigandi búnaði við aflvélar Hellisheiðarvirkjunar.

Fyrri greinSkuggabandið, Ingó, GRM og Bryndís Ásmunds á Café Rose
Næsta greinGröfutækni bauð lægst í gatnagerð