Byggðaráð segir að nú sé nóg komið

Miðjan á Hellu. Ljósmynd/Rangárþing ytra

„Nú er svo komið að við hér í Rangárþingi ytra teljum nóg komið. Annað hvort fær Festi hf leyfi til þess að reka hér áfram sína ágætu verslun og þá gjarnan þannig að bætt verði í og opnuð hér Krónubúð, eða þá að Festi hf snýr sér að því að selja Kjarvalsverslun sína hér á Hellu til aðila sem teljast samkeppnisaðilar og hafa til þess nægjanlegt afl. Þessir aðilar eru teljandi á fingrum annarar handar hérlendis.“

Þetta segir í yfirlýsingu sem byggðaráð Rangárþings ytra hefur sent frá sér vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í verslunarmálum í sveitarfélaginu. Meðal þeirra skilyrða sem Samkeppniseftirlitið setti fyrir sameiningu N1 og Festar árið 2018 var að hið sameinaða félag myndi selja Kjarval á Hellu. Samkeppnisstofnun fer fram á að verslunin skuli aðeins seld til aðila sem sé til þess fallinn og líklegur til að veita umtalsvert samkeppnislegt aðhald við sölu dagvara á svæðinu. Skal kaupandi vera óháður og ekki í neinum tengslum við N1.

„Nú höfum við hér í Rangárþingi ytra fylgst með því að Festi hf hefur gert einhverjar tilraunir til að selja frá sér verslunina en greinilegt er að í engu tilfelli hefur þar ofangreint skilyrði […] verið uppfyllt,“ segir í yfirlýsingu byggðaráðs sem bætir við að Festi og Samkeppniseftirlitið þurfi einfaldlega að setjast niður og endurskoða þessa sátt sem gerð var.

„Því varla er hægt að hugsa sér verri útkomu fyrir samkeppni um dagvöruverslun í Rangárvallasýslu en þá að loka einu matvörubúðinni í öðru kauptúninu. Sú útkoma hlýtur reyndar að teljast óhugsandi því þar með er fyrrgreind sátt milli Festi hf og Samkeppniseftirlitsins fyrst þverbrotin,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.

Fyrri greinStyrmir Snær framlengir í Þorlákshöfn
Næsta greinSamstarf um framleiðslu græns vetnis til útflutnings frá Þorlákshöfn