Byggða- og húsakönnun á Stokkseyri

Nýkomið er út ritið Byggða- og húsakönnun á Stokkseyri. Í húsakönnuninni voru rannsökuð 58 hús í og við Stokkseyri og gert mat yfir ástand og varðveislugildi þeirra.

Í ritinu eru lagðar fram tillögur að friðun einstakra húsa og hverfisvernd yfir hluta þorpsins.

Í samantektarkafla ritsins segir: „Helstu niðurstöður byggða- og húsakönnunar á Stokkseyri eru þær að þorpið býr yfir sérstökum gæðum sem felast í einstökum húsum og húsaþyrpingum og menningasögulegu gildi þeirra bæði hvað varðar byggingalistarsögu og atvinnusögu byggðarinnar. Samspil húsa, atvinnusögu, þorpsbúa og náttúrulegra aðstæðna er óvíða ennþá til staðar í sama mæli og á Stokkseyri. Þetta á fyrst og fremst við um húsin sem könnunin tók til, þ.e.a.s. hús byggð fyrir árið 1940, þegar húsum var valinn staður eftir þeim aðstæðum sem umhverfið bauð upp á fremur en á lóðum sem dregnar eru upp eftir reglustrikum í skipulagi.“

Ráðgjafi byggða- og húsakönnunarinnar á Stokkseyri og höfundur ritsins er Guðmundur L. Hafsteinsson arkitekt. Húsakönnunin var unnin í tveimur áföngum, fyrst á árunum 1999 og 2000 og svo var aftur tekið við könnunina árið 2010. Byggðasafn Árnesinga hafði umsjón með húsakönnuninni.

Húsafriðunarnefnd ríkisins veitti styrki til könnunarinnar sem unnin er eftir leiðbeiningum hennar. Útgefandi er Sveitarfélagið Árborg í samvinnu við Byggðasafn Árnesinga. Ritið sem er 58 síður að stærð verður dreift á öll heimili á Stokkseyri.

Ritið verður til sölu í Ráðhúsi Árborgar og á skrifstofu Byggðasafns Árnesinga við Hafnarbrú á Eyrarbakka. Einnig verður það að finna á heimasíðu sveitarfélagsins www.arborg.is og á heimasíðu Húsafriðunarnefndar www.husdafridun.is

Meðfylgjandi ljósmynd er tekin á þriðjudaginn var þegar Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar tók við ritinu af vinnuhópnum. Frá vinstri: Grétar Zophoníasson, Siggeir Ingólfsson, Lýður Pálsson, Ásta Stefánsdóttir og Inga Lára Baldvinsdóttir.

Fyrri greinHeiðinni og Þrengslunum lokað aftur
Næsta greinÁætlað að skipta um gólf á næsta ári