Byggði verðlaunamynd á móður sinni

Stuttmyndin Viktoría eftir Brúsa Ólason frá Litlu-Sandvík hlaut Sprettfiskinn á nýafstaðinni Stockfish kvikmyndahátíðinni.

„Fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir viðurkenninguna sem felst í því að vinna jafn góðar myndir og voru í keppninni með Viktoríu. En svo er líka voða gott að fá eina milljón króna í úttekt hjá Kukl fyrir næstu mynd,“ segir Brúsi í samtali við sunnlenska.is.

„Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á lýsa því hvernig mér leið. Ekki minnstu,“ segir Brúsi þegar hann er spurður hvernig honum var innanbrjóst þegar úrslitin voru tilkynnt.

„Myndin er um Viktoríu, konu sem stendur í því að reka kúabú þrátt fyrir mikið mótlæti. Myndin byggir lauslega á móður minni Aldísi Pálsdóttur í Litlu-Sandvík og þegar ég fór að koma hugmyndinni niður á blað varð til þessi hlýja en þrjóska kona sem Ingrid Jónsdóttir gæðir svo lífi.“

Í dómnefnd sátu Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstjóri, Hlín Jóhannesdóttir framleiðandi og Ísold Uggadóttir leikstjóri. Í umsögn þeirra um myndina segir: „Hér er á ferð falleg og einföld saga, gædd hlýrri og mannlegri aðalpersónu sem ófeimin tekst á við mótlæti á eigin spýtur og hreyfir við áhorfendum.“

„Ég vil bara fyrst og fremst koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem gerðu mér kleift að gera þessa litlu mynd. Ég á svo marga góða að sem trúa á mig og þennan fáránlega draum sem ég er með um að verða kvikmyndagerðarmaður. Það er ég þakklátur fyrir,“ segir Brúsi að lokum.

Fyrri greinÞyrla kölluð að slysstað við Lómagnúp
Næsta greinÞrír titlar á grunnskólamóti Glímusambandsins