Byggði verðlaunamynd á móður sinni

Stuttmyndin Viktoría eftir Brúsa Ólason frá Litlu-Sandvík hlaut Sprettfiskinn á nýafstaðinni Stockfish kvikmyndahátíðinni.

„Fyrst og fremst er ég þakklátur fyrir viðurkenninguna sem felst í því að vinna jafn góðar myndir og voru í keppninni með Viktoríu. En svo er líka voða gott að fá eina milljón króna í úttekt hjá Kukl fyrir næstu mynd,“ segir Brúsi í samtali við sunnlenska.is.

„Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á lýsa því hvernig mér leið. Ekki minnstu,“ segir Brúsi þegar hann er spurður hvernig honum var innanbrjóst þegar úrslitin voru tilkynnt.

„Myndin er um Viktoríu, konu sem stendur í því að reka kúabú þrátt fyrir mikið mótlæti. Myndin byggir lauslega á móður minni Aldísi Pálsdóttur í Litlu-Sandvík og þegar ég fór að koma hugmyndinni niður á blað varð til þessi hlýja en þrjóska kona sem Ingrid Jónsdóttir gæðir svo lífi.“

Í dómnefnd sátu Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstjóri, Hlín Jóhannesdóttir framleiðandi og Ísold Uggadóttir leikstjóri. Í umsögn þeirra um myndina segir: „Hér er á ferð falleg og einföld saga, gædd hlýrri og mannlegri aðalpersónu sem ófeimin tekst á við mótlæti á eigin spýtur og hreyfir við áhorfendum.“

„Ég vil bara fyrst og fremst koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem gerðu mér kleift að gera þessa litlu mynd. Ég á svo marga góða að sem trúa á mig og þennan fáránlega draum sem ég er með um að verða kvikmyndagerðarmaður. Það er ég þakklátur fyrir,“ segir Brúsi að lokum.