Býflugnarækt kennd á Reykjum

Á starfsstöð Landbúnaðarháskólans í Reykjum í Ölfusi fer nú fram kennsla í býflugnaræktun. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi áfangi er kenndur í skólanum og er hann skylda á fyrsta ári fyrir nemendur í ylræktarbraut og lífrænni ræktun.

Í áfanganum er farið yfir allt frá sögu býflugnaræktunar, samfélagsgerð, fóðrun og umhirðu, yfir í helstu meindýr og sjúkdóma sem spillt geta býflugnarækt. Einnig er afurðum lýst, nýtingu þeirra og úrvinnslu.

Úlfur Óskarsson er umsjónamaður áfangans en hann hefur sjálfur stundað býflugnarækt í þrjú ár.

„Þótt býflugnarækt sé fyrst og fremst skemmtileg tómstundariðja og áhugaverður búskapur sem býr til gómsæta afurð, getur markviss ræktun haft þýðingu fyrir útiræktun þar sem frjóberar skipta miklu máli, svo sem í berja- og repjurækt,“ segir í frétt frá Landbúnaðarháskólanum.

Fyrri greinByggðasaga Grafnings og Grímsness komin út
Næsta greinHamar steinlá í Hólminum