Buster valinn þjónustuhundur ársins

Buster, fíkniefnahundur lögreglunnar á Selfossi, var um helgina útnefndur þjónustuhundur ársins 2011. Buster var heiðraður á alþjóðlegri sýningu Hundarækarfélags Íslands í Víðidal.

Undir heitið þjónustuhundur ársins heyra þeir hundar sem vinna allan ársins hring að þjónustu í samfélaginu, t.d. lögreglu- og björgunarhundar en Hundaræktarfélagið veitir þessa viðurkenningu árlega.

Buster, sem er þriggja ára enskur springer spaniel, var fluttur inn frá Bretlandi og valinn sérstaklega með tilliti til þess að verða fíkniefnaleitarhundur. Eigandi Busters er lögreglan í Árnessýslu en umsjónarmaður hans er Guðjón Smári Guðjónsson, lögreglumaður.

Þegar Buster kom til landsins árið 2009 fóru fram þjálfunaræfingar á vegum Steinars Gunnarssonar, yfirhundaþjálfara ríkislögreglustjóra. Samstarf Guðjóns Smára og Busters byrjaði síðan vorið 2010.

Vinnudagur þeirra félaga er fjölbreyttur rétt eins og lögreglustarfið hvern dag. Guðjón Smári þjálfar og viðrar Buster á vinnuvöktum sínum og verkefnin sem Buster er notaður í geta komið upp á öllum tímum sólarhringsins. Í mars síðastliðnum 2011 fór Guðjón Smári með Buster í gegnum grunnpróf sem hann stóðst með prýði og framundan er fyrirliggjandi árleg starfleyfisúttekt sem krefst stífra æfinga.

Á móti fíkniefnahunda sem fram fór í Vestmannaeyjum fyrir skömmu gerði Buster sér lítið fyrir og hampaði Íslandsmeistaratitli. Verkefnin, sem hann leysti þar voru til dæmis leit í húsum, á víðavangi, í bílum og vöruhúsum. Guðjón Smári og Buster hafa gert það gott og fundið töluvert magn af fíkniefnum.

Vegna vinnu sinnar hefur Buster verið töluvert í fréttum og skemmst er að minnast þess er hann þefaði uppi fíkniefni fyrir tilviljun í uppsveitum Árnessýslu. Buster var hleypt út úr bílnum til að létta á sér en hann fór rakleiðis að næsta íbúðarhúsi og gaf merki um að innandyra væru fíkniefni. Við leit í húsinu fundust kannabisplöntur sem lögreglan lagði hald á ásamt búnaði við ræktun plantnanna.

Að sögn Guðjóns Smára er Buster sterkur og kraftmikill karakter, vinnusamur, ör og með sterkt veiðieðli, sem hentar vel við þá vinnu og aðstæður, sem þeir vinna við.