Buster glefsaði í barn

Síðastliðinn laugardag glefsaði fíkniefnaleitarhundurin Buster í barn sem kom að honum þar sem hann var bundinn við fellihýsi umsjónarmanns síns á tjaldsvæði í Árnessýslu.

Lögreglumaðurinn sem hefur umsjón með hundinum var þar í útilegu með fjölskyldu sína.

Barnið sem um ræðir er fætt árið 2006 og meiddist á hönd þannig að húðrispur hlutust af og úr a.m.k. einni þeirra blæddi. Foreldrar barnsins mátu málið þannig, eftir að hafa ráðfært sig við heilbrigðisstarfsmenn, að ekki væri tilefni til að leita með barnið til læknis.

Í samtali yfirlögregluþjóns við föður barnsins að kvöldi sama dags og aftur í dag kom fram að ekki væri að sjá annað en að barnið hefði náð sér að fullu.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að Buster bíði þess hins vegar að fram fari sérstakt skapgerðarmat á honum en fram að því verður hann að sætta sig við að bera múl eða körfu til öryggis. Hann heldur vinnunni, að minnsta kosti fyrst um sinn.