Buster fann kannabis í gönguferð

Tveir lögreglumenn fóru í göngueftirlit á Selfossi síðdegis í gær, þriðjudag, ásamt fíkniefnahundinum Buster.

Þegar þeir komu að húsi einu sveigði hundurinn af leið og gaf vísbendingu um að hann fyndi lykt af fíkniefnum. Bankað var á dyr og kom umráðamaður hússins til dyra.

Lögreglumennirnir gerðu leit og fundu tvær rúmlega hálfs metra kannabisjurtir í ræktun. Húsráðandi var handtekinn og yfirheyrður og plöntur, lampi og annar búnaður sem notaður við ræktunina var haldlagt.

Plönturnar voru sendar til greiningar og styrkleikamælingar og viðurkenndi húsráðandinn ræktun til eigin neyslu.