Busarnir skírðir í Laugarvatni

Busavikunni í Menntaskólanum að Laugarvatni lauk í dag með því að nýnemarnir voru skírðir í Laugarvatni.

Skírnin er rótgróin hefð við skólann en hún hefur verið iðkuð frá haustinu 1959. Að sögn Páls M. Skúlasonar, aðstoðarskólameistara, hefur aðdragandi hennar þó breyst nokkuð frá því sem áður var þegar eldri nemar þurftu að elta busana uppi og koma þeim með tiltækum ráðum út í vatn.

„Nú hlaupa busarnir hver sem betur getur út í vatnið til að hljóta þar skírn, en hún felst í því að hávaxnir nemendur efri bekkja lesa yfir þeim latneska þulu um leið og þeir ausa þá vatni úr gamalli skólabjöllu,” sagði Páll í samtali við sunnlenska.is.

Því næst fá busarnir dýfu í vatnið og teljast þar með innvígðir í samfélag nemenda. Þegar þeir koma upp úr vatninu eru þeir faðmaðir og kysstir og taka við rós úr hendi stallara.

Að sögn Páls gekk busavikan afskaplega vel enda hefur veðrið leikið við Laugvetninga og krakkarnir tekið á málum af ábyrgð.

Myndir frá busauppboði sem fram fór fyrr í vikunni má skoða hér.

Fyrri greinHálendismiðstöð hafnað
Næsta greinNýr vegur opnar eftir þrjár vikur