
Næstkomandi sunnudag, þann 24. ágúst kl. 11:00, verður haldin hátíð við Úlfljótsvatn í Grafningi, til að fagna því að hringvegurinn í kringum Þingvallavatn er nú allur kominn með bundið slitlag.
Kl. 11:00 mun Kristján Atli „Doppumeistari“ frá Sólheimum, koma í mark eftir göngu frá Ljósafossstöð. Í kjölfarið mun Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, flytja stutt ávarp og klippa á borða til að opna veginn.
Að því loknu verður gengið upp í tjaldið þar sem Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir nokkur orð. Torfi Stefán Jónsson, fræðslufulltrúi Þingvalla, heldur erindi um Sögur og samgöngur til Þingvalla frá 930–2038 – það sem gerðist og það sem aldrei varð. Að lokum munu tónlistarmennirnir Magnús Kjartansson og Pálmi Gunnarsson spila nokkur lög.
Boðið verður upp á kaffi og köku á meðan birgðir endast.
Á Úlfljótsvatni verður boðið upp á fjölbreytta afþreyingu á vegum skátanna milli kl. 11:00 og 14:00. Gestir geta meðal annars prófað klifurvegg, bogfimi á útisvæði, siglt á bátum á bátatjörninni og tekið þátt í útieldun.
Sveitarfélögin Grímsnes- og Grafningshreppur og Bláskógabyggð standa að viðburðinum í samstarfi við Landsvirkjun, Vegagerðina, Þjóðgarðinn á Þingvöllum og Skátana á Úlfljótsvatni.
