Bundið slitlag kemur næsta sumar

Verktaki hefur lokið við að steypa nýja brú yfir Hvítá hjá Flúðum og er gert ráð fyrir því að hún verði opnuð í nóvember.

Hugsanlegt er að það verði fyrr eða undir lok október þegar steypan hefur fengið nægan tíma til að harðna og lokið hefur verið frágangi við mannvirkið.

Þótt brúin verði opnuð fyrir umferð verður ekki bundið slitlag lagt á veginn fyrr en næsta sumar. Verkinu á að vera að fullu lokið þann 15. júní 2011.