Bújörðin Skálholt auglýst til ábúðar

Kirkjuráð hefur, fyrir hönd kirkjumálasjóðs, auglýst lausa til ábúðar jörðina Skálholt í Biskupsstungum. Ábúðarsamningur verður til fimm ára með möguleika á framlengingu að ábúðartíma loknum.

Miðað er við að ábúð hefjist þann 1. júní næstkomandi. Ábúðarsamningnum fylgir starf ráðsmanns á Skálholtsstað, sem gerður verður sérstakur ráðningarsamningur um.

Skálholtsjörðin er 12 til 14 hundruð hektarar að stærð en ræktað land er um 40 ha. Greiðslumark jarðarinnar er nú 71.350 þúsund lítrar mjólkur og er leigt með jörðinni. Óheimilt hefur verið að reka sauðfjárbúskap á jörðinni frá 1993 og verður svo áfram.

Húsakostur sem fylgir með í ábúðarsamningi eru tvílyft íbúðarhús, fjós og fjárhús með áburðarkjallara, hlaða og vélageymsla. Þar sem ábúðarsamningi fylgir starf ráðsmanns á Skálholtsstað verður samið sérstaklega um leigugjald í tengslum við endurgjald fyrir það vinnuframlag.

Lögð er áhersla á að væntanlegum ábúanda sé ljóst að Skálholt er fjölsóttur sögu- og helgistaður sem hefur algera sérstöðu í sögu þjóðarinnar.

Við val á ábúanda er m.a. litið til menntunar á sviði landbúnaðar og annarrar hagnýtrar menntunar,starfsreynslu í landbúnaði og að áform umsækjenda um framtíðarnýtingu jarðarinnar teljist raunhæf að teknu tilliti til staðhátta.