„Búin að vera lokuð inni á hóteli í rafmagnsleysi í 40 klukkutíma“

Ingólfur Þórarinsson og Rakel Hjaltadóttir eru búin að vera í heimsreisu síðustu vikur og eru nú stödd í strandbænum Airlie Beach í Queensland, sem varð illa úti í fellibylnum Debbie.

Debbie tók land í Ástralíu í gærmorgun og náði vindhraðinn allt að 73 metrum á sekúndu. Til samanburðar telst veður fárviðri ef það nær 32,7 m/sek skv. vef Veðurstofu Íslands.

„Við erum búin að vera lokuð hérna inni á hóteli í rafmagnsleysi í 40 klukkutíma. Það er lítill matur, lítið símasamband og engin birta. Við náðum smá hleðslu á símana í bílnum hjá hótelstjóranum og gátum þannig látið vita að okkur,“ sagði Ingólfur í samtali við sunnlenska.is.

„Ástandið hérna er ótrúlegt. Öll tré eru meira og minna fallin og úti um allt eru þök sem hafa fokið af húsum. Vegir eru lokaðir vegna flóða og núna eru þrumur og eldingar, sem eru víst eftirstöðvar af fellibylnum,“ segir Ingólfur.

Ingólfur segir að Íslendingurinn hafi aldrei séð annað eins.

„Ég var með einhvern Íslendinga hroka áður en þetta byrjaði. Við fengum viðvörunarbréf frá hótelstýrunni og ég sagði Rakel bara að henda því. Þetta væri örugglega bara smá rok. Fjörutíu klukkutímum seinna er enn rafmagnslaust og öll okkar ferðaplön komin í vaskinn. Við vorum nálægt því að taka Íslendinginn á það og keyra af stað áður en fellibylurinn reið yfir, en sem betur fer gerðum við það ekki,“ segir Ingólfur, en þau Rakel vita ekki hvenær þau geta haldið ferðalaginu áfram.

„Við verðum bara að vera þolinmóð og bíða. Þetta er mjög þroskandi, maður nær að íhuga hérna,“ sagði Ingólfur léttur að lokum.

Fyrri greinÆgir Hafberg hættir eftir tuttugu ára starf
Næsta greinStofnfundur hollvinasamtaka um menningarsalinn