Búið að opna Suðurlandsveg

Ökumenn biðu í röð í allan dag í Vík, eftir því að vegurinn yrði opnaður. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Búið er að opna Suðurlandsvegi að nýju á milli Hvolsvallar og Víkur en hann hefur verið lokaður að mestu leiti frá því í gærmorgun.

Mikil skaflamyndun var austan við Hvolsvöll og til að mynda var tveggja metra hár skafl yfir þjóðveginn við Hemlu í Vestur-Landeyjum. Um 50 bílar lentu í vandræðum á Sólheimasandi í gær og þurftu aðstoð björgunarsveita og þá var sömuleiðis ófært um Reynisfjall.

Þessa stundina er hálka eða hálkublettir á Suðurlandsvegi en annars er þæfingsfærð, hálka eða hálkublettir á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi. Á morgun er svo von á næstu lægð og má búast við veglokunum á Suðurlandi þegar líður á daginn.

Hann var ansi vígalegur skaflinn við Hemlu. Ljósmynd/Björgunarsveitin Dagrenning
Fyrri greinOfsaveður og stefnir í rauða viðvörun
Næsta greinJáverk byggir leikskólann á Hvolsvelli