Búið að opna í Þakgili

Þakgil. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Tjaldsvæðið í Þakgili á Höfðabrekkuafrétti opnaði fyrir helgina og verður opið fram á haust.

Reksturinn er með svipuðu sniði og í fyrra en helsta breytingin er sú að nú verður hægt að fá rafmagn í fellihýsi. Þá hefur verið bætt við útiborðum og lýsingin í smáhýsunum bætt auk þess sem þar eru komnar kaffigræjr og fleiri smááhöld.

Náttúruperlan Þakgil er staðsett á Höfðarekkuafrétti milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands 14 km frá þjóðveginum. Eins og nafn gilsins bendir til er þar mikil veðursæld.

Beygt er út af þjóðveginum við Höfðabrekku sem er 5 km austan við Vík í Mýrdal. Ekið er sem leið liggur inn á heiðar, eftir vegi sem var þjóðvegur nr. 1 til 1955, þar til komið er að skilti sem bendir inn í Þakgil. Vegurinn inn í Þakgil er fær öllum bílum.

Á þessu svæði eru margar fallegar gönguleiðir við allra hæfi. Tjaldsvæði, snyrting og sturta eru á staðnum. Matsalurinn er náttúrulegur hellir og í honum eru borð og bekkir og bæði kamína og grill.

Þakgil er einungis ætlað fjölskyldufólki.

Heimasíða Þakgils.

Fyrri greinÖskufok í norðanroki
Næsta greinFyrsti sinubruni „vorsins“