Búið í einni íbúð í blokkinni

Aðeins er búið í einni íbúð af sautján í íbúðablokk við Fossveg 8 á Selfossi. Hefur íbúum þar fækkað jafnt og þétt á undanförnum vikum.

Íbúðirnar eru allar í eigu Íbúðarlánasjóðs, sem eignaðist blokkina eftir að félagið Víðir og synir ehf misstu yfirráð yfir henni.

Einn fyrrum íbúi í blokkinni lýsir samskiptum sínum við sjóðinn þannig að hann hafi verið óliðlegur. Viðkomandi hafi fengið á sig skuldabagga vegna húsnæðis eftir skilnað, og fengið þau skilaboð hjá sjóðnum að ekki væri hægt að framlengja leigusamning, allir sem leigðu eignir hjá sjóðnum þyrftu að vera skuldlaus við hann.

„Það er nokkuð einkennilegt að fólk sem missir húsnæði vegna þungra lána, geti ekki fengið leigðar íbúðir hjá sjóðnum“. Árið 2010 var búið í 13-14 íbúðum.

Íbúar hafa kvartað yfir ástandi blokkarinnar, raki sé í íbúðum og rafmagn og aðrar lagnir séu ekki í lagi í einhverjum þeirra.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar hafði heyrt af málinu þegar blaðið bar það undir hana. Fólk hafi komið í ráðhúsið og forvitnast um íbúðir til leigu, jafnvel félagslegar ef þannig bar undir.

Fulltrúar Íbúðalánasjóðs svöruðu ekki skilaboðum við vinnslu fréttarinnar.