Búið að rífa Sandvíkurhluta Snælands

Stórvirkar vinnuvélar hafa í vikunni unnið að niðurrifi húsa í mjólkurbúshverfinu á Selfossi. Í morgun var verið að rífa húsið Snæland, sem á sér um margt merkilega sögu í uppbyggingu byggðarinnar á Selfossi.

Þegar byggðin óx við Ölfusárbrú á fyrstu áratugum síðustu aldar var hún í þremur hreppum. Stærsti hlutinn var í Sandvíkurhreppi en allmörg hús höfðu verið byggð í Ölfushreppi utan ár, og í Hraungerðishreppi austur við mjólkurbú.

Haraldur Gíslason, mjólkurfræðingur, keypti lóðina Austurveg 53 haustið 1943 og reisti þar íbúðarhúsið Snæland. Snæland stóð á mörkum Hraungerðishrepps og Sandvíkurhrepps, en markalína Selfoss og Laugardæla lá í gegnum lóðina að Austurvegi 53. Deilt var um hvorum hreppnum húsið tilheyrði en gárungarnir sögðu að hreppamörkin lægju í gegnum hjónarúmið. Í II. bindi Sögu Selfoss eftir Guðmund Kristinsson segir að Gísli Jónsson, oddviti á Stóru-Reykjum, hafi sagt reykháfinn ráða, hann væri Hraungerðishreppsmegin og því bæru þeim fasteignagjöld og útsvör. Og þar við sat.

Og nú, sléttum sjötíu árum frá því Snæland var reist, heyrir það sögunni til.

Landsbankinn er eigandi húsanna sem verið er að rífa við Austurveginn en þau hafa verið í niðurníðslu um árabil. Bankinn tók yfir eignirnar af þrotabúi fyrirtækis sem hugðist byggja þarna háhýsi, í mikilli andstöðu við íbúa hverfisins.

„Þetta er mikið ánægjuefni,“ segir Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar. „Við sjáum mikil tækifæri á þessu svæði, þetta er 7.500 fermetra lóð á einstaklega góðum stað.“ Hann bendir á að bæjaryfirvöld hafi þá stefnu að þarna verði lágreist byggð og verið sé að vinna í deiliskipulagi út frá þeirri hugmynd.

Fyrri greinHörður kominn upp á vegg
Næsta greinBragðdauft gegn botnliðinu