Búið að nefna hringtorgin

Bæjarstjórn Árborgar hefur samþykkt nöfn á öll hringtorg í sveitarfélaginu að undangegninni nafnasamkeppni.

Torgin eru níu talsins og eru nöfnin sótt bæði í byggðarsöguna og í önnur heiti í nágrenni þeirra.

Hringtorgið í Grænumörk á Selfossi heitir nú Markartorg en nafnið kom frá Ingu Dröfn Jónsdóttur.

Sigríður Pálsdóttir á nafnið Ingólfstorg á torgið við Toyota í Hrísmýri og Unnar Magnússon stakk upp á nafninu Lækjartorg á hringtorgið í Suðurbyggð á Selfossi.

Hringtorgið við leikskólann á Eyrarbakka heitir Vinatorg eftir hugmynd Auðar Hjálmarsdóttur en Hjörtur Þórarinsson á nafnið Ísólfstorg á hringtorgið austan við Stokkseyri.

Gísli Guðmundsson og leikskólabörn á Óskasteini á Álfheimum stungu upp á nafninu Tryggvatorg á torgið við brúarsporðinn. Nafnið hefur átt við torgið undanfarna áratugi en er nú opinberlega samþykkt af bæjarstjórn.

Þá koma þrjár nafngiftir frá nefndinni sem sá um nafnakeppnina; Múlatorg á Eyravegi á Selfossi, Egilstorg við Fjölbrautaskóla Suðurlands og Æskutorg við Sunnulækjarskóla.