Búðarhálsstöð gangsett í dag

Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, var gangsett í dag við formlega athöfn.

Það voru Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem gangsettu stöðina.

Uppsett afl Búðarhálsstöðvar er 95 MW og framleiðir hún um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsins og er því sjöunda stærsta aflstöð Landsvirkjunar.

„Framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun hafa verið til fyrirmyndar í alla staði og vert að geta þess hversu mikil eining hefur verið um framkvæmdina. Við hjá Landsvirkjun erum ánægð og hreykin á þessari stundu. Búðarhálsstöð verður 16. aflstöð Landsvirkjunar sem vinnur hreina og endurnýjanlega orku inn á raforkukerfi landsmanna og skapa verðmæti um ókomin ár fyrir eiganda okkar, íslenska þjóð,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, við gangsetningarathöfnina.

Búðarhálsstöð markar nokkur tímamót í uppbyggingu virkjana á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu en með henni er virkjað áður ónýtt 40 metra fall vatns í Tungnaá úr frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Þar með er allt fall vatnsins virkjað sem rennur frá Þórisvatni og alveg niður fyrir Búrfell. Fallið í heild sinni er 450 metrar.

Lón Búðarhálsstöðvar heitir Sporðöldulón og er myndað með tveimur stíflum. Önnur þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Frá Sporðöldulóni liggja 4 kílómetra löng jarðgöng sem leiða vatnið undir Búðarháls að inntaki stöðvarinnar.

Þegar mest lét á framkvæmdatímanum störfuðu hátt í 400 manns við byggingu Búðarhálsvirkjunar. Um tvær milljónir vinnustunda fóru í byggingu Búðarhálsvirkjunar, eða um 900 ársverk oft við mjög krefjandi og erfiðar aðstæður.

Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust upphaflega undir lok árs 2001. Fyrstu framkvæmdir fólust í því að byggja brú yfir Tungnaá og leggja vegi yfir Búðarháls að framkvæmdasvæðum stöðvarhúss og Sporðöldustíflu. Einnig var að hluta grafið fyrir sveifluþró. Sumrin 2008 og 2009 var unnið að frekari undirbúningi, rafstrengur lagður frá Hrauneyjafossvirkjun að fyrirhugðum framkvæmdasvæðum og vinnubúðir settar upp.

Fyrstu útboðin voru auglýst árið 2010. Í framhaldi var samið við Ístak hf. um gerð jarðganga, stíflu, stöðvarhúss og annarra mannvirkja. Í desember 2010 var samið við þýska fyrirtækið Voith Hydro um véla- og rafbúnað fyrir stöðina. Útboðum á öðrum hlutum verkefnisins lauk á árinu 2012. Þá var verksamingur undirritaður í september 2011 við Íslenska aðalverktaka um smíði og uppsetningu á fallpípum. Í janúar 2012 var gerður verksamningur við franska fyrirtækið Alstom Hydro um smíði og uppsetningu á lokum og í apríl 2012 var samið við portúgalska fyrirtækið Efacec um framleiðslu á vélaspennum. Allir verksamningar voru undirritaðir í framhaldi af útboðum á evrópska efnahagssvæðinu. Iljin frá Suður Kóreu, sá um framleiðslu á aflstrengjum frá stöðinni í tengivirki Landsnets. Fjölmargir aðrir undirverktakar, bæði innlendir og erlendir, komu einnig að verkefninu.

Gert er ráð fyrir að vinnubúðir og verkbú verktaka verði flutt af svæðinu á næstu misserum. Næsta sumar verður unnið að frágangi og landmótun umhverfis helstu mannvirki stöðvarinnar.