Búðarhálslína og nýtt tengivirki formlega tekin í notkun

Nýtt tengivirki Landsnets við Búðarháls og Búðarhálslína 1 voru tekin formlega í notkun þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra spennusetti virkið í dag – og tengdi þar með Búðarhálsvirkjun við meginflutningskerfi Landsnets.

Prófanir á vélbúnaði virkjunarinnar fara nú í hönd og hefst raforkuframleiðsla inn á kerfið innan tíðar. Búðarhálstengivirkið er hannað með það fyrir augum að hægt verði að stækka það síðar, verði t.d. ný flutningslína til Norðurlands, svokölluð Norður-suðurtenging, byggð.

Þegar ákveðið var að hefjast handa við byggingu Búðarhálsvirkjunar að nýju, eftir margra ára hlé, voru hönnunarforsendur tengivirkisins endurskoðaðar frá grunni hjá Landsneti með það að markmiði að lækka framkvæmdakostnað og aðlaga mannvirkin betur að umhverfinu. Breytingar voru einnig gerðar á lagningu Búðarhálslínu sem spöruðu umtalsverða fjármuni. Má nefna sem dæmi að kostnaður við gerð tengivirkisins varð á endanum um helmingi lægri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Með lægri framkvæmdakostnaði minnkar þrýstingur á gjaldskrárhækkanir Landsnets, en gjaldskrárþróun hefur verið verulega undir verðlagsþróun.

Ný kynslóð tengivirkja og tengipunktur Norður-suðurtengingar
„Við hönnunina var gert ráð fyrir að einfalt yrði að stækka virkið – og tengja þar inn nýja línu t.d. til Norðurlands, svokallaða Norður-suðurtengingu, sem Landsnet hyggst nú ráðast í hið fyrsta að undirbúa,“ sagði Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, við athöfnina í dag en þessi áform hafa verið í undirbúningi hjá fyrirtækinu um nokkurn tíma og stefnt er að því að þau fari í formlegt umhverfismat á næstunni.

Búðarhálstengivirkið er það fyrstra sinnar tegundar í nýrri kynslóð tengivirkja hjá Landsneti sem eiga að draga úr rekstrarkostnaði, auka rekstraröryggi og minnka jafnframt umhverfisáhrif slíkra mannvirkja. Virkið er með yfirbyggðri skel sem eykur bæði rekstraröryggi og endingu búnaðar. Það er búið tveimur 220 kílóvolta (kV) DCB aflrofum – en það er mun hagkvæmari tæknibúnaður en upphaflega var gert ráð fyrir að nota.

Búðarhálslína 1 er alls um 5,6 km löng 220 kV háspennulína en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir um 17 km langri línu. Hún liggur frá tengivirkinu við Búðarháls að Hrauneyjarfosslínu á Langöldu, þar sem hún er T-tengd inn á meginflutningskerfi Landsnets. Mat á umhverfisáhrifum línunnar fór fram samhliða mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar en legu hennar var breytt árið 2010.

12 milljarða fjárfesting í ár og í fyrra
Útboðshönnun vegna línu og tengivirkis hófst haustið 2011 og framkvæmdir hófust sumarið 2012 með lagningu vegslóða, vinnu við undirstöður fyrir möstur og byggingu tengivirkishússins. Sumarið 2013 voru háspennumöstrin reist, leiðari línunnar strengdur og lokið við uppsetningu búnaðar í tengivirkinu. Á komandi sumri verður unnið að lóðarfrágangi við tengivirkið og frágangi á umhverfi og slóðum meðfram línunni.

Heildarkostnaður við byggingu Búðarhálslínu 1 og tengivirkisins við Búðarháls er um einn milljarður króna en alls námu framkvæmdir Landsnets í flutningskerfinu á nýliðnu ári um sjö milljörðum króna. Á þessu ári er fyrirhugað að verja um fimm milljörðum króna í fjárfestingar í meginflutningskerfinu og svæðisbundnum kerfum Landsnets í öllum landsfjórðungum, til að auka enn frekar gæði og afhendingaröryggi raforku til almennings og fyrirtækja.

Fyrri greinVarað við hálku og krapa
Næsta greinBryndís og Folarnir á Spot í kvöld