Brýnt að ráðast í stækkun sem allra fyrst

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir það mjög ánægjulegt að sjá að tillögur um stækkun sjúkrahússins á Selfossi séum komnar á borð Alþingis.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 er gert ráð fyrir 600 milljónum króna sem munu renna til framkvæmda við sjúkrahúsið á Selfossi, eins og sunnlenska.is greindi frá í síðustu viku. Áformað að byggja þriðju hæðina ofan á sjúkraúsið og er áætlað er að fjármagna verkið að fullu á næstu fjórum árum.

„Tillagan gerir ráð fyrir stækkun og endurbótum á húsnæðinu á Selfossi og við bindum miklar vonir við að hún nái fram að ganga svo hægt verð að ráðast í aðkallandi breytingar á húsnæðinu,“ segir Díana og bætir við að þörfin á stækkun sé brýn.

„Við höfum verið í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið um brýna þörf þess efnis að ráðast í þessar framkvæmdir sem allra fyrst og við fögnum því að sjá að þessar framkvæmdir eru komnar inn í umræðuna fyrir fjármálaáætlun 2021 til 2025. Við bíðum spennt eftir niðurstöðunum og vonum það besta,“ segir Díana ennfremur.