Brýnt að hefja framkvæmdir

Við lokaafgreiðslu fjárlaga var samþykkt að verja 50 milljónum króna til uppbyggingar fangelsins að Litla Hrauni.

Það er í raun óskilgreint í hvað á að verja fjármununum en Ari Björn Thorarensen, forseti bæjarstjórnar Árborgar og fangavörður, segir ekkert vit í öðru en að nota peningana til framkvæmda.
,,Ég er mest hræddur við að fjármunirnir verði ekki notaðir til uppbyggingar, heldur verði þeir notaðir til viðhaldsverkefna sem hafa setið á hakanum,” sagði Ari í samtali við Sunnlenska. Hann segir brýnt að nota þessar 50 milljónir til uppbyggingar staðarins og nefndi þar sérstaklega til móttökuhús fyrir heimsóknir.
Að sögn Ara er hægt að hefja framkvæmdir með skömmum fyrirvara þar sem allar grunnhugmyndir liggi fyrir. ,,Það er ekkert vit í öðru en að hefja strax verkið,” sagði Ari.