Brýnt að bæta aðgengi blindra og sjónskertra

Merkingar og aðgengi fyrir blinda og sjónskerta við þekktustu ferða­mannastaði Suð­ur­­lands þarfn­ast verulegra úrbóta, að því er fram kemur í úttekt sem nemi við Þroska­­þjálfafræði við Háskóla Íslands gerði ný­verið.

Göngu­stígar eru oft ekki afmarkaðir og þar sem þeir eru afmarkaðir eru notaðir kaðlar sem gagnast illa blindum og sjónskertum. Merkingar eru oft lélegar og skilti eru ekki í aðgengi­legri hæð með upphleyptu letri svo þeir geti kynnt sér upplýsingaefni.

Valdís Magnúsdóttir í Lang­holtskoti í Hrunamannahreppi sem framkvæmdi rannsóknina í tengsl­um við BA ritgerð sína segir að hún ætli sér að koma niðurstöðum rannsóknarinnar á framfæri við viðeigandi aðila og vonast til þess að bætt verði úr aðgengismálum blindra og sjónskertra.

Valdís rannsakaði sérstaklega aðgengi að Gullfossi og Geysi og naut við það aðstoðar Jóns Hjalta Sigurðssonar, frá Skollagróf í Hrunamannahreppi. Jón Hjalti bendir á að blindir og sjónskertir vinni hörðum höndum að því að byggja upp sjálfstæði sitt og að geta gert sem flesta hluti án aðstoðar. Við Geysi og Gullfoss þurfi blindir og sjónskertir stöðugt á aðstoð annarra að halda hvort sem er til fylgdar eða til að lesa upp­lýsingar

Fjöldi erlendra ferða­manna sem eiga við þessa fötlun að stríða koma til landsins á öllum tímum ársins. Segir Valdís að þeir vilji líka upplifa þessar náttúru­perlur þótt það sé með öðrum skyn­færum en sjóninni.

Fyrri grein„Verðum vonandi meira en sjoppustopp“
Næsta greinÚr útskrift í útihúsin