Brynjar og Perla í Ísland Got Talent á sunnudaginn

Dansparið unga Brynjar Björnsson og Perla Steingrímsdóttir keppa í undanúrslitaþætti Ísland Got Talent næstkomandi sunnudagskvöld, þann 13. apríl.

Perla á ættir að rekja til Víkur í Mýrdal og hefur hún eytt mörgum sumrum þar í húsi fjölskyldunnar við Víkurbraut. Brynjar og Perla hafa æft dans í fjöldamörg ár og unnið marga Íslands- og bikarmeistaratitla. Þau hafa farið á mörg heimsmeistaramót fyrir Íslands hönd og staðið sig frábærlega. Sumarið 2013 fóru þau til Kína og náðu þar 10. sæti af 130 danspörum í flokki fullorðinna, en þau eru aðeins 16 og 17 ára. Þau eru bæði í landsliði Íslands í dansi og voru valin sem afreksefni hjá ÍSÍ sem er mikill heiður. Einnig fékk Perla sérstaka viðurkenningu frá Afrekskvennasjóði ÍSÍ fyrir góðan árangur þá aðeins 14 ára gömul.

Brynjar og Perla eru bæði á 1. ári í menntaskóla, Brynjar á myndlistarbraut í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ og Perla í Versló. Þau eru sannarlega listrænt par og hefur Brynjar t.d. unnið keppni í hönnun á stuttermabolum og fyrir nokkrum dögum unnu þau saman hönnunarkeppni Kjörís. Brynjar veit fátt skemmtilegra en að mála og hefur hann verið duglegur að fjármagna dansinn með sölu á málverkum.

Brynjar og Perla hafa núna komið fram þrisvar í keppninni Ísland Got Talent með dansatriði og í hvert skipti hafa þau notað málverk eftir Brynjar sem hluta af atriðinu. Það verður því spennandi að sjá málverkið sem Brynjar hefur málað fyrir undanúrslitin en atriðið þeirra er víst stórglæsilegt.

Sunnlendingar eru hvattir til að styðja við bakið á þessum ungu og hæfileikaríku dönsurum.