Bryndís fékk þakkarviðurkenningu FKA

Bryndís Brynjólfsdóttir. Ljósmynd/FKA

Bryndís Brynjólfsdóttir, kaupmaður í Lindinni tískuvöruverslun á Selfossi, hlaut í gær þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri árið 2021.

Þakkarviðurkenningin er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnanda í atvinnulífinu.

Bryndís stofnaði verslunina Lindina árið 1974 og hefur starfað þar æ síðan og skapað atvinnutækifæri fyrir konur í heimabyggð. Þetta var í kjölfarið á því að hagir hennar breyttust óvænt og foreldrar hennar ákváðu að selja Tryggvaskála, þar sem hún hafði starfað fram að því. Bryndís ákvað þá að finna sína eigin leið til að hafa næga atvinnu.

Í umsögn FKA um Bryndísi segir að „þessi frábæra kona sé þverskurður alls þess sem skiptir máli í atvinnusköpun. Hún er fyrirmynd, snjöll, áræðin, drífandi og þrautseig.“

Þá hlaut Ölfusingurinn María Fjóla Harðardóttir FKA viðurkenninguna. María Fjóla er forstjóri Hrafnistu og í umsögn FKA segir að María Fjóla sé sannur leiðtogi og mikil fyrirmynd fyrir konur í öllum stéttum.

Viðurkenningahátíð FKA 2021 var með öðru sniði en áður og var sýnd á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi. Veittar eru viðurkenningar í þremur flokkum en þessara tveggja viðurkenninga hlaut Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica, hvatningarviðurkenningu FKA.

(Fremri röð f.v.) María Fjóla Harðardóttir, Bryndís Brynjólfsdóttir og Fida Abu Libdeh. (Aftari röð f.v.) Áslaug Gunnlaugsdóttir stjórnarkona FKA, Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður FKA, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA. Ljósmynd/FKA
Fyrri greinLögreglan varar við svikahröppum á netinu
Næsta greinHrossahólf víða orðin vatnslaus