Bryðjuholt valið fyrirmyndarbú ársins

Á fyrri degi aðalfundar Landsambands kúabænda í gær fengu ábúendurnir í Bryðjuholti í Hrunamannahreppi sérstaka viðurkenningu sem Fyrirmyndarbú LK 2016.

Þessi viðurkenning er veitt einu kúabúi á ári en þau Þórunn Andrésdóttir og Samúel Unnsteinn Eyjólfsson veittu viðurkenningunni viðtöku.

Viðurkenningin er nú veitt í fyrsta skipti og hlaut Bryðjuholtsbúið hana eftir tilnefningar frá aðildarfélögum LK. Búið er glæsilegt í alla staði, sómi sinnar sveitar og öll ásýnd til mikils sóma. Þá eru kýrnar á búinu afurðasamar auk þess sem búið hefur lagt til fjölda gripa til hins sameiginlega kynbótastarfs og t.d. skilað einum nautsföður, Frísk 94026, og öðru reyndu nauti, Hrygg 05008, auk nokkurra nauta sem nú bíða afkvæmadóms og prófunar.

Auk þessa hafa hjónin Þórunn og Samúel tekið virkan þátt í félagsstörfum bæði heima fyrir og á vettvangi greinarinnar og því einstaklega vel að þessari viðurkenningu komin.

Fyrri grein„Með óendanlegan áhuga á hundum“
Næsta greinJarðskjálftar gætu fundist í byggð