Brúnni yfir Eldvatn við Ása lokað

Í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra kemur fram að brúnni yfir Eldvatn við Ása hefur verið lokað, á meðan ástand þar er skoðað.

Í fréttum RÚV í morgun kom fram að rennsli í Skaftá við Sveinstind gæti verið allt að 3.000 rúmmetrar á sekúndu en mælirinn þar sýndi mest 2.000 rúmmetra á sekúndu. Mikið vatn rennur hins vegar framhjá mælisniðiðinu og sameinast svo aftur í ánni neðar.

„Þetta er alveg gríðarlegt flóð og miklu meira en við höfum kynnst áður og ég tel fulla ástæðu til að hafa varann á,“ segir Snorri Zóphaníasson, jarðfræðingur á vatnamælingasviði Veðurstofunnar, í samtali við RÚV.

Snorri segir að megnið af flóðinu fari niður Eldvatn hjá Ásum og gríðarlega mikið fari inn í hraunið. „Það mun fara þaðan um farveginn og fara út í Flögulón og síðan undir Kúðafljótsbrúnna. Ég hef mælt mikinn gröft frá stöplum hennar í hlaupi. Við höfum lóðað með stöplunum. Ég er nú ekki brúarverkfræðingur en ég veit þetta, við höfum dýptarmælt við stöplana og það hefur grafist mjög mikið frá þeim,“ segir Snorri.

Fyrri greinVerslunin Ós hættir rekstri
Næsta greinÆgir Már ráðinn forstjóri Advania á Íslandi