Brunavarnir Árnessýslu kaupa stærstan hluta björgunarmiðstöðvarinnar

Á gamlársdag var gengið frá kaupum Brunavarna Árnessýslu á stærstum hluta Björgunarmiðstöðvarinnar á Selfossi. Um er að ræða þann hluta sem tilheyrir slökkviliðinu og sjúkraflutningum HSu.

Eignarhlutur Brunavarna Árnessýslu er 2,080 fermetrar en samtals er húsið 2,790 fermetrar. Kaupverðið er tæpar 300 milljónir króna.

Fyrsta skóflustungan að björgunarmiðstöðinni var tekin í apríl 2006 og var hún vígð í júní í fyrra. Björgunarfélag Árborgar lét byggja húsið en þegar leið á byggingartímann réði félagið ekki við framkvæmdina og Íslandsbanki yfirtók eignina.

Sveitarfélagið Árborg greiddi Íslandsbanka 192 milljónir króna fyrir húsið haustið 2010 og forráðamenn sveitarfélagsins sáu til þess að sú starfsemi sem upphaflega var ætluð í húsinu fór þangað inn. Eftir kaup sveitarfélagsins var umtalsverðum fjármunum varið í frágang á húsinu og umhverfi þess.

Auk Brunavarna Árnessýslu og sjúkraflutninga HSu hefur Björgunarfélag Árborgar 710 fermetra aðstöðu í húsinu.

Fyrri greinJólin kvödd á Selfossi
Næsta greinKaffi krús bauð best