Brunavarnir Árnessýslu kaupa björgunarstigabíl

Pétur slökkviliðsstjóri og Daniel Apeland frá DAGA Fire & Rescue ehf., umboðsaðila Echelles Riffaud SÁ. Ljósmynd/BÁ

Brunavarnir Árnessýslu hafa gert samning við stigabílaframleiðandann Echelles Riffaud SÁ í Frakklandi um kaup á björgunarstigabíl.

Bíllinn er af gerðinni Scania með 33 metra björgunarstiga með fingur og mannkörfu fyrir fjóra einstaklinga. Einnig verður hann útbúinn með fjarstýrðum slökkvistút, hitamyndavél, festingu fyrir sjúkrabörur, rafstöð og fleiri aukabúnaði. Bíllinn mun verða afhentur til Brunavarna Árnessýslu innan árs.

Í tilkynningu frá BÁ segir að björgunartæki af þessu tagi séu ákaflega mikilvæg við slökkvi- og björgunarstörf. Þessi stigabíll mun koma í staðin fyrir rúmlega 40 ára gamlan körfubíl slökkviliðsins sem hefur þó svo sannarlega staðið fyrir sínu í gegnum árin.

„Við teljum ekki nokkurn vafa á því að með tilkomu þessa tækis verði öryggi íbúa Árnessýslu og slökkviliðsmanna Brunavarna Árnessýslu, aukið til muna auk þess sem skilvirkni slökkvistarfa verður enn meiri þegar á reynir,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri.

Samskonar stigabíll hjá slökkviliðinu í Östre Toten í Noregi.
Fyrri greinÞyrla sótti veika rjúpnaskyttu
Næsta greinHalldór stýrir Bahrein á heimsmeistaramótinu