Brúna tunnan kostar Árborg 16 milljónir króna

Sorp var urðað í Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi til ársins 2009. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Útgjöld Árborgar vegna breytinga á sorphirðu í sveitarfélaginu og innleiðingar brúnu tunnunnar eru áætluð um 16 milljónir króna.

Í ljósi þess að Sorpstöð Suðurlands þarf að heja útflutning á sorpi til brennslu á þessu ári lagði bæjarráð til við bæjarstjórn að flokkun lífræns sorps verði hafin í sveitarfélaginu eins fljótt og mögulegt er.

Aukin flokkun á sorpi verður til þess að hægt sé að lágmarka magn og kostnað vegna úrgangs sem senda þarf utan til brennslu.

Því þarf að koma upp brúnum tunnum fyrir lífrænt sorp við öll heimili í sveitarfélaginu og er kostnaður við það verkefni áætlaður um 16 milljónir króna. Tillagan var samþykkt af bæjarstjórn.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is er unnið að því að íbúar fái brúnu tunnurnar afhentar í lok febrúar.

Fyrri greinGýgjarhólskot afurðahæsta sauðfjárbúið
Næsta greinSelfoss fær bandarískan varnarmann