Brúðkaupsdagurinn ekki ólíkur stórtónleikum

Ása Berglind Hjálmarsdóttir.

Nýverið fór vefsíðan tofrandibrudkaup.is í loftið en á henni má finna allt sem viðkemur brúðkaupum.

Það er Þorlákshafnarmærin Ása Berglind Hjálmarsdóttir sem hefur veg og vanda að vefnum sem hún opnaði eftir að hafa misst vinnuna sína í mars vegna Covid. Hjá Töfrandi brúðkaup getur fólk keypt þjónustupakka og látið þannig aðra sjá um stærstu skipulagsþættina svo að það geti notið undirbúningsins betur.

„Hugmyndin kviknaði þegar ég og Tómas byrjuðum að undirbúa okkar eigið brúðkaup um síðustu jól. Þá fannst mér vanta vef á íslensku með upplýsingum um allskonar tengt undirbúningsferlinu og eins hefði mér þótt geggjað að geta séð einhverskonar yfirlit yfir veisluþjónustur, ljósmyndara og fleiri þjónustuaðila sem tengjast þessum viðburði,“ segir Ása í samtali við sunnlenska.is.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar
Ása segir að hún hafi gengið með hugmyndina í maganum þar til hún missti vinnuna í lok mars en þá opnaðist gluggi til að koma þessu í framkvæmd.

„Þá ákvað ég líka að bjóða upp á mína þjónustu til að aðstoða tilvonandi brúðhjón. Það geri ég með því að bjóða upp á pakka með skipulagsskjölum, bjóða fólki að panta hjá mér vefsíðu og svo tek ég líka að mér að sjá alfarið um allt skipulagið þannig að brúðhjónin geta nánast bara mætt eins og hinir gestirnir,“ segir Ása.

Ása segir að hún hafi nýtt tímann vel eftir að hún missti vinnuna. „Ég bjó til vefsíðu og allt efnið, safnaði saman þjónustuaðilum og undirbjó þetta allt saman. Vefurinn fór svo í loftið 6. maí,“ segir Ása en á vefnum má líka finna hlaðvarp þar sem Ása fær til sín góða gesti sem eiga það sameiginlegt að vera með sérþekkingu á þeim ótal hlutum sem snerta brúðkaupsdaginn.

„Viðtökurnar hafa verið framar mínum björtustu vonum. Það eru greinilega fleiri en ég sem geta hugsað sér að nýta svona vef sér til gagns og gamans,“ segir Ása.

Snýst um að halda mörgum bolti á lofti
„Ég fékk mjög mikinn stuðning frá öllu mínu fólki og það er eins og þeim hafi þótt þetta mjög eðlilegt framhald af því sem ég hef verið að gera síðustu ár. En ég hef verið mikið í viðburðarhaldi og séð um skipulagsmál fyrir tónlistarfólk, sem er í sjálfu sér ekki mjög ólíkt því að undirbúa þennan dag í lífi fólks. Í grunninn snýst þetta um að geta haldið mörgum boltum á lofti, átt góð mannleg samskipti, notað skapandi hugsun og vera drífandi í að láta hluti gerast,“ segir Ása en þess má geta að hún er meðal annars umboðsmaður tónlistarmannsins Jónasar Sig auk þess sem hún hefur séð um að skipuleggja bæjarhátíðina Hamingan við hafið.

Hefur lært mikið af viðmælendum sínum
Ása segir að það sé vissilega sérstakt að stofna fyrirtæki sem sérhæfir sig í brúðkaupum þegar flestir hafa frestað sínum brúðkaupum sem áttu að vera í sumar. „Ég veit líka að það mun líða ákveðinn tími þar til verkefnin fara að hrúgast inn, en þangað til einbeiti ég mér að því að búa til gott efni á síðuna, taka upp þætti fyrir hlaðvarpið og vanda mig við að gera síðuna bæði gagnlega og skemmtilega,“ segir Ása.

Sem fyrr segir gengur Ása í það heilaga með Tómasi unnusta sínum í júní. Hún segir að hún hafi lært mikið á því að taka viðtöl við fólk fyrir vefinn sem hefur óhjákvæmlega áhrif á það hvernig brúðkaupið hjá þeim Tómasi verður. Nefnir hún sem dæmi viðtalið sem hún tók við Tinnu Bjarnadóttur, blómaskreyti frá Selfossi. „Svo hlakka ég mikið til að deila með notendum vefsins viðtali sem ég tók í vikunni við Albert sem er með síðuna alberteldar.is en hann er algjör snillingur í öllu sem snýr að veisluhöldum og var með mjög marga góða punkta sem gott er að hafa í huga,“ segir Ása.

Dýrt að kaupa marga ódýra kjóla
„Mér þykir íslenskar verslanir sem sérhæfa sig í að þjónusta tilvonandi brúðhjón oft vera vanmetnar. Það er allt of oft fyrsta hugsun okkar Íslendinga að best sé að panta erlendis frá, en það getur endað með ósköpum. Ég hef t.d. heyrt margar sögur af konum sem enda á að panta sér marga kjóla af erlendum síðum því þær eru ekki ánægðar með kjólinn þegar hann kemur til landsins. Svo oftar en ekki þurfa þær að láta breyta honum með tilheyrandi kostnaði,“ segir Ása.

„Ég mæli miklu frekar með því að leita til fagaðila á þessu sviði, fá aðstoð frá byrjun og vera þannig viss um að þú fáir kjól sem passar og er búinn til í mannsæmandi aðstæðum úr gæðaefnum. Kostnaðurinn þarf ekki að vera meiri, sérstaklega ekki þegar búið er að kaupa marga „ódýra“ kjóla,“ segir Ása.

Ása segist ekki geta lagt nógu mikla áherslu á það að fólk verði að muna að njóta undirbúningsins og vegferðarinnar í átt að brúðkaupsdeginum. „Það sem mér hefur þótt svo skemmtilegt við okkar eigið undirbúningsferli eru stundirnar sem verða til í undirbúningnum, með vinum okkar og ættingjum sem glaðir vilja fá að taka þátt og hjálpa til,“ segir Ása að lokum.

Töfrandi brúðkaup á Instagram

Töfrandi brúðkaup á Facebook

Fyrri greinStarfshópur skipaður um Errósetur á Kirkjubæjarklaustri
Næsta greinSlasaðist alvarlega í Sundhöll Selfoss