Brúarstræti og Miðstræti í miðbænum – Kjartan sat hjá

Grafið fyrir nýjum miðbæ á Selfossi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu Sigtúns þróunarfélags um götuheitin Brúarstræti og Miðstræti í nýja miðbænum á Selfossi.

Tillagan var lögð fram eftir samkeppni, þar sem auglýst var eftir hugmyndum um nöfn á A-götu og B-götu.

Bæjarstjórn samþykkti götuheitin með átta atkvæðum af níu, en Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi D-listans, sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

„Mín skoðun tengist menningu og sögu svæðisins. Ég hefði viljað skíra aðra götuna Hafnarstræti enda liggur gatan eftir athafnasvæði Kaupfélagsins Hafnar og mér þótti það passa betur. En þarna voru ágæt nöfn lögð til og ég gerði það meira í stráksskap, ef svo má að orði komast að sitja hjá,“ sagði Kjartan í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinÁrborg semur við Fljóaljós um ljósleiðara á þrjá bæi
Næsta greinGjáin mæld þann 16. mars