Brúarsmíði gengur vel

Brúarsmíðin við Múlakvísl gekk vel í nótt. Tólf staurar voru reknir niður en fyrsti staur var kominn niður klukkan hálf ellefu í gærkvöldi.

Þannig eru komin upp þrjú svokölluð ok en stálbitar verða lagðir ofan á okin. Reiknað er með að fyrstu stálbitar verði komnir upp síðdegis eða í kvöld.

Unnið er að smíði brúargólfsins samhliða og eru 40 metrar þegar tilbúnir á staðnum. Reiknað er með að í kvöld verði sjáanlegir um 50 metrar af brú. Í heild verður brúin 150-160 metrar.

Samhliða þessu verður haldið áfram að reka niður tréstaurana. Þeir eru 11-12 metra langir og eru reknir niður 8-9 metrar þannig að upp úr standa 2,5-3 metrar en brúargólfið mun vera um 4,0 metra yfir vatnsborðinu.

Undirbúningur að vegagerð að bráðabrigðabrúnni er einnig í fullum gangi og er byrjað að vinna grjót og koma því á staðinn en verja þarf veg og brú að austanverðu með grjótvörðum varnargarði.

Áætlun um að hægt verði að hleypa umferð á brúna uppúr miðri næstu viku stendur enn en hafa verður alla fyrirvara meðal annars með tilliti til vatnsmagns í ánni.

Fyrri greinMikil aðsókn á Laugarvatn
Næsta greinRúta valt í Múlakvísl