Brúa bilið með yfirdrætti

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps hefur samþykkt að óska eftir tímabundinni hækkun upp á 30 milljónir króna á yfirdráttarheimild sinni á bankareikningi sveitarfélagsins.

Að sögn Ingibjargar Harðardóttur, sveitarstjóra, er ástæðan sú að tekjur af fasteignagjöldum berast ekki fyrr en í mars og sveitarfélagið þarf að brúa bilið þangað til.

Sveitarstjórn hefur einnig falið Ingibjörgu að leita leiða til að fjámagna fyrirhugaða skólabyggingu hreppsins. Ingibjörg segir að sú vinna sé skammt á veg kominn þar sem kostnaðartölur fyrir bygginguna liggja ekki fyrir en þær séu væntanlegar fljótlega. Byggt verður í áföngum og eignir seldar til að mæta væntanlegum kostnaði.