Brotnar rúður í bílum og á bæjum

Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa staðið í ströngu í dag. Verst var ástandið undir Eyjafjöllum þar sem rúður brotnuðu í bílum og bílar fuku á hliðina á svæðinu frá Pétursey að Skógum.

Í fyrstu var reynt að senda traktor frá Sólheimahjáleigu á staðinn en hann varð frá að hverfa vegna veðurofsans. Hið sama á við um bíla sem sendir voru frá Vík, m.a. brotnuðu rúður í björgunarsveitabíl Víkverja. Svo mikill var vindurinn að vörubílar, sem voru að flytja snjóbíla á pallinum, köstuðust til. Víða á bæjum hafa rúður brotnað og tilkynnt hefur verið um fok á þakplötum. Verið er að hafa samband við alla bæi á svæðinu til að kanna ástandið.

Björgunarsveitir víðar hafa verið við óveðursaðstoð í dag, m.a. við Hornafjörð og Háöldu svo eitthvað sé nefnt og einnig hafa sveitir verið við lokanir vega víða.

Þrír snjóbílar eru á leið inn Fljótshlíð til leitar að konu sem hugðist ganga á skíðum í kringum Mýrdalsjökul. Þeim miðar hægt vegna veðurs og skyggnis. Aðrir snjóbílar sem nýta átti í leitinni eru veðurtepptir við Heimaland. Ekki er talið líklegt að þeir komist af stað fyrr en veður fer að ganga niður seinnipart í nótt. Í ljósi aðstæðna hefur ekki þótt forsvaranlegt að senda vélsleða til leitar.

Um 120 björgunarmenn frá 23 björgunarsveitum hafa tekið þátt í aðgerðum dagsins.

Vegurinn yfir Hellisheiði er ennþá lokaður en búið er að opna Sandskeið og Þrengsli. Lokað er fyrir alla umferð undir Eyjafjöllum að Vík og frá Skaftafelli að Kvískerjum. Á Hellisheiði eru horfur á að NA-áttina lægi markvert undir miðnætti. Veðrið gengur ekki niður að gagni undir Eyjafjöllum fyrr en í nótt og ekki fyrr en undir morgunn austur í Öræfum. Með morgninum verður vindur norðanstæðari, víða enn hvassviðri og stormur austast á landinu.

Fyrri greinRafmagnslaust í Mýrdalnum
Næsta greinKonan fundin heil á húfi