Brotist inn í tólf bíla í geymsluhúsnæði

Síðastliðinn laugardag var tilkynnt um innbrot í geymsluhúsnæði við Laxabraut í Þorlákshöfn. Í húsinu voru í geymslu húsbílar, fellihýsi og tjaldvagnar.

Brotist hafði verið inn í ein tólf ökutæki. Ekki liggur fyrir hvort og þá hverju hefur verið stolið þar sem ekki hafði náðst til allra eiganda tækjanna.

Innbrotið er talið hafa átt sér stað á tímabilinu frá 22. mars þar til á laugardag að það uppgötvaðist.

Þá fékk lögreglan tilkynningu um innbrot í sumarbústað í byggingu við Torfastaði í Biskupstungum. Þaðan var stolið rauðri loftpressu, naglabyssu, Hitachi hleðsluborvél, DeWalt hleðsluborvél og verkfæratösku sem innihélt borvél, sverðsög, hjólsög og ljós af tegundinni Craftsman.

Þeir sem veitt geta upplýsingar um þessi tvö innbrot eru beðnir að hafa samband í síma lögreglu 480 1010.