Brotist inn í mælingabát í Landeyjahöfn

Aðfaranótt laugardags var brotist inn í mælingabát Samgöngustofu sem um þessar mundir er í Landeyjahöfn.

Báturinn var nýkominn á staðinn og hafði ekki verið sjósettur heldur var á kerru á bryggunni.

Lögreglumenn á Hvolsvelli í samvinnu við lögreglu í Vestmannaeyjum hafa upplýst málið. Í ljós kom að tveir einstaklingar sem höfðu farið í bílaleigubíl með Herjólfi til Eyja og til baka á laugardeginum stóðu að innbrotinu.

Tvímenningarnir voru handteknir við Hvolsvöll á laugardag. Í bifreið þeirra fannst þýfi úr bátnum sem voru verðmæt mælitæki, flotgalli og ýmiss konar verkfæri.

Þeir viðurkenndu þjófnaðinn og voru látnir lausir að lokinni yfirheyrslu.