Brotist inn í átta bústaði

Brotist var inn í átta sumarbústaði í Bláskógabyggð í síðustu viku. Þjófarnir spenntu upp glugga eða tóku hurðir af hjörum til að komast inn í húsin.

Þeir stálu fyrst og fremst flatskjáum og í einhverjum tilvikum varð tjón á eignum.

Fyrir hádegi síðastliðinn miðvikudag var brotist inn í bifreið sem var á bílastæði við brúarbitann sem er til minnis um flóðið á Skeiðará. Hliðarrúða var brotin og Acer fartölvu sem var í bifreiðinni stolið. Tjónþolarnir voru ítalskir ferðamenn sem höfðu fengið sér hálftíma göngutúr frá bifreiðinni.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur einnig fram að þrír ökumenn voru kærðir fyrir ölvun við akstur, einn fyrir fíkniefnaakstur, einn fyrir að aka sviptur ökuréttindum og 32 fyrir hraðakstur.

Þá komu tvær kærur á broti á nálgunarbanni til rannsóknar hjá lögreglunni í síðustu viku.

Fyrri greinVarð undir fjórhjóli og fótbrotnaði
Næsta greinSlökkviliðsmenn á straumvatnsæfingu