Brotist inn í Alvörubúðina

Aðfaranótt föstudags var brotist inn í Alvörubúðina við Eyraveg á Selfossi og þaðan stolið skiptimynt úr sjóðsvél.

Þjófurinn hafði reynt að spenna upp útihurð en ekki tekist. Hann komst inn með því að spenna upp glugga.

Þá var brotin rúða í útihurð Suðurlandssólar við Eyraveg aðfaranótt laugardagsins með því að kasta í hana steini. Ekki var farið inn í húsið.

Lögregla biður þá sem veitt geta upplýsingar um þessi mál að hafa samband í síma 480 1010.