Brosandi umferðarljós gleðja vegfarendur

Vegfarendur um Tryggvagötu og Engjaveg á Selfossi hafa eflaust tekið eftir brosköllunum sem komnir eru á umferðarljósin á gatnamótunum þar.

„Þetta er liður í því að vekja athygli á sveitarfélaginu og gleðja fólk aðeins,“ sagði Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

„Við ætlum að vekja athygli á Árborg í sumar í samvinnu við verslunar- og þjónustuaðila í byggðarkjörnunum þremur. Það eru ýmsir skemmtilegir hlutir í pípunum, kýrin Bella verður áberandi í mjólkurbænum Selfossi þar sem við munum m.a. gera Bellutorg með skrítnum og skemmtilegum upplýsingum um mjólkina. Þar verður fjósafýla fyrir fólk í sérstöku íláti, halar upp úr runnum og skjöldóttir ljósastaurar svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Elfa Dögg.

Fyrri greinGistinóttum á Suðurlandi fjölgar
Næsta greinGT flytur inn kínverska rafbíla